Ferill 553. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 855  —  553. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

1. gr.

    Við 1. mgr. 2. gr. laganna bætast eftirfarandi orðskýringar í réttri stafrófsröð:
    Álagsgreiðsla er tiltekin fjárhæð sem greiðist á gæðastýrða framleiðslu, sbr. 41. gr.
    Gæðastýrð sauðfjárframleiðsla er dilkakjöt sem framleitt hefur verið samkvæmt kröfum um skilgreindan framleiðsluferil, hollustu og umhverfisvernd.
    Jöfnunargreiðsla er tiltekin fjárhæð sem greiðist á framleiðslu umfram 18,2 kg dilkakjöts á ærgildi greiðslumarks samkvæmt skilyrðum sem fram koma í 40. gr.
    Útflutningsskylda merkir sameiginlega ábyrgð framleiðenda sauðfjárafurða á að tiltekinn hluti framleiðslu verði fluttur úr landi.

2. gr.

    4.–6. mgr. 29. gr. laganna orðast svo:
    Landbúnaðarráðherra skal fyrir 1. september ár hvert að fengnum tillögum Bændasamtaka Íslands ákveða það hlutfall kindakjöts sem flytja skal á erlendan markað. Ákvörðun þessi getur gilt fyrir allt að tólf mánaða framleiðslu- og sölutímabil.
    Sláturleyfishafa er skylt að leggja til kjöt til útflutnings samkvæmt ákvörðun landbúnaðarráðherra, semja um skipti á kjöti við sláturleyfishafa með heimild til útflutnings eða gera verktakasamning við útflutningshús um slátrun þess hluta innleggs hússins sem flytja þarf úr landi. Sé þess ekki kostur er sláturleyfishafa skylt að greiða vegna útflutningskvaðar gjald sem landbúnaðarráðherra auglýsir fyrir 1. september ár hvert og skal svara til mismunar á áætluðu heildsöluverði og viðmiðunarverði sem miðast við meðalverð við útflutning á undangengnum tólf mánuðum. Landbúnaðarráðherra skal, að fengnum tillögum Bændasamtaka Íslands og Landssamtaka sláturleyfishafa, setja nánari reglur um skipulag útflutnings svo að erlendir markaðir nýtist sem best.
    Allir sauðfjárframleiðendur skulu taka þátt í útflutningi eða sæta útflutningsuppgjöri vegna útflutningskvaðar fyrir sama hlutfall af framleiðslu sinni að undanskildu því magni sem framleiðandi tekur til eigin nota samkvæmt heimild í reglugerð. Undanþegnir útflutningsuppgjöri eru þó þeir framleiðendur sem hafa 0,7 vetrarfóðraðar kindur eða minna á hvert ærgildi greiðslumarks og eru þeir skuldbundnir til að leggja aðeins inn afurðir þess fjár. Það hlutfall skal taka breytingum í samræmi við breytingar á sölu kindakjöts á innlendum markaði reiknað frá 7000 tonna árlegri sölu. Fer þá öll framleiðsla þeirra til innanlandssölu enda liggi fyrir fullnægjandi staðfesting um ásetning. Þá getur landbúnaðarráðherra ákveðið að fenginni tillögu Bændasamtaka Íslands að kjöt af sauðfé sem slátrað er á ákveðnum tímabilum utan haustsláturtíðar verði undanþegið útflutningsuppgjöri.

Prentað upp.


3. gr.

    Fyrirsögn IX. kafla laganna verður: Um framleiðslu og greiðslumark sauðfjárafurða 2001–2007.

4. gr.

    36. gr. laganna orðast svo:
    Markmið með ákvæðum þessa kafla um framleiðslu sauðfjárafurða eru:
     a.      að styrkja sauðfjárrækt sem atvinnugrein og bæta afkomu sauðfjárbænda,
     b.      að ná fram aukinni hagræðingu í sauðfjárrækt,
     c.      að sauðfjárrækt verði í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og æskileg landnýtingarsjónarmið,
     d.      að halda jafnvægi milli framleiðslu og sölu sauðfjárafurða,
     e.      að efla fagmennsku, þekkingu og þróun í sauðfjárrækt.

5. gr.

    37. gr. laganna orðast svo:
    Frá og með 1. janúar 2001 verður beingreiðslumark sauðfjárafurða 1.740 millj. kr. á ári og skiptist hlutfallslega eins milli lögbýla og beingreiðslur gerðu árið 2000. Beingreiðslur til einstakra lögbýla taka breytingum í samræmi við ákvæði 2. og 4. mgr. 38. gr., 1. mgr. 39. gr. og 41. gr.

6. gr.

    38. gr. laganna orðast svo:
    Greiðslumark skal bundið við lögbýli. Bændasamtök Íslands skulu halda skrá yfir rétthafa greiðslumarks lögbýla og handhafa beingreiðslna samkvæmt því. Á hverju lögbýli skal aðeins einn framleiðandi vera skráður handhafi beingreiðslna. Þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða með aðskilinn búrekstur getur hver og einn þeirra verið handhafi beingreiðslna.
    Heimilt er að flytja greiðslumark milli lögbýla fram til 1. janúar 2004 eða þar til ríkissjóður hefur keypt upp 45.000 ærgildi, sbr. 4. mgr., með eftirtöldum skilyrðum: við sameiningu lögbýla; ef eigandi lögbýlis, sem hefur búið og stundað framleiðslu síðastliðin tvö ár, flytur á annað lögbýli; og ef eigandi að sérskráðu greiðslumarki flytur á annað lögbýli. Þegar ríkissjóður hefur keypt upp 45.000 ærgildi, sbr. 4. mgr., eða eigi síðar en 1. janúar 2004 verður framsal greiðslumarks milli lögbýla heimilt án framangreindra takmarkana. Framsal greiðslumarks skal taka gildi 1. janúar ár hvert og beingreiðslur greiðast framsalshafa frá sama tíma. Tilkynna skal Bændasamtökum Íslands framsal fyrir 15. janúar ár hvert vegna beingreiðslna fyrir viðkomandi ár.
    Sé ábúandi annar en eigandi lögbýlis þarf samþykki ábúenda og eigenda fyrir framsali greiðslumarks.
    Ríkissjóði er heimilt að kaupa upp greiðslumark í sauðfé. Beingreiðslum, sem svara til fyrstu 25.000 ærgildanna sem ríkið kaupir upp, skal varið til að greiða álag á framleitt dilkakjöt fyrstu tvö árin. Eftir það nýtast þær til álags á gæðastýrða framleiðslu. Ráðherra setur nánari ákvæði um framkvæmd þessa í reglugerð.

7. gr.

    39. gr. laganna orðast svo:
    Beingreiðslur greiðast úr ríkissjóði til handhafa í samræmi við greiðslumark lögbýlis eins og það er á hverjum tíma. Beingreiðslur skulu vera 4.399 kr. á hvert ærgildi á árunum 2001 og 2002 en lækka árlega eftir það miðað við framangreinda fjárhæð sem hér segir: árið 2003 um 12,5%, árið 2004 um 15%, árið 2005 um 17,5%, árið 2006 um 20% og árið 2007 um 22,5%.
    Réttur til beingreiðslna flyst milli aðila innan lögbýlis við ábúendaskipti og við breytingu skráningar ef um hjón eða sambúðarfólk er að ræða.
    Til að fá fullar beingreiðslur þarf handhafi að eiga að lágmarki 0,6 vetrarfóðraðar kindur fyrir hvert ærgildi greiðslumarks árið 2001. Síðan skal landbúnaðarráðherra ákveða árlega ásetningshlutfall að fengnum tillögum framkvæmdanefndar búvörusamninga. Nái ásetningur ekki því lágmarki skerðast beingreiðslur hlutfallslega. Á lögbýlum þar sem búfjárbeit kemur í veg fyrir eðlilega framkvæmd uppgræðslu eða veldur of miklu álagi á beitiland er ráðherra heimilt að ákveða lægra ásetningshlutfall að fenginni umsögn Landgræðslu ríkisins og/eða Skógræktar ríkisins. Þá getur ráðherra ákveðið að víkja frá framangreindu ásetningshlutfalli hjá framleiðendum sem hafa skorið niður fé til útrýmingar sjúkdómum.
    Falli beingreiðslur niður án þess að gerður hafi verið samningur um búskaparlok heldur viðkomandi lögbýli greiðslumarki sínu. Tilkynna skal Bændasamtökum Íslands um búskaparáform fyrir 15. janúar ár hvert ef handhafi óskar eftir að fá beingreiðslur aftur að loknu hléi. Beingreiðslur greiðast handhafa frá og með 1. janúar ár hvert eftir að hléi lýkur.
    Heimilt er að skerða eða fella niður beingreiðslur ef sauðfjárbóndi gefur rangar upplýsingar um ásettan fjölda sauðfjár eða stundar ólöglega sölu eða dreifingu á kjöti af heimaslátruðu sauðfé eða brýtur á annan hátt reglur eða samningsbundin ákvæði um afsetningu afurða.
    Beingreiðslur sem lausar eru án samninga um búskaparlok getur framkvæmdanefnd búvörusamninga ákveðið að nota í önnur verkefni.

8. gr.

    40. gr. laganna orðast svo:
    Jöfnunargreiðslur skal greiða til framleiðenda eftir nánari ákvæðum sem ráðherra setur í reglugerð.
    Jöfnunargreiðslur reiknast þannig að greidd verður jöfnun, að hámarki 100 kr. á greiðslugrunn, sem reiknast með eftirfarandi hætti: finna skal það meðalinnlegg dilkakjöts tveggja ára af árunum 1997, 1998 og 1999 sem er umfram 18,2 kg á hvert ærgildi lögbýlisins eins og það var skráð við hver áramót þar á undan. Reikna skal 30% álag á framleiðslu júní- og júlímánaða og 12% álag á framleiðslu ágústmánaðar. Sala líflamba vegna fjárskipta skal talin til framleiðslu.
    Einungis þeir framleiðendur sem skiluðu árlega í afurðastöð að reiknuðu meðaltali meira en 1.250 kg dilkakjöts á árunum 1997, 1998 og 1999 geta átt rétt á jöfnunargreiðslum. Skilyrði til að hljóta jöfnunargreiðslur eru enn fremur að innlagt dilkakjöt á árinu fari ekki niður fyrir 18,2 kg á hvert ærgildi greiðslumarks og að innlagt dilkakjöt árið á undan sé að lágmarki 18,2 kg eftir hverja vetrarfóðraða á. Frá og með 1. janúar 2003 er réttur til að hljóta jöfnunargreiðslur einnig bundinn því skilyrði að framleiðendur hafi með höndum gæðastýrða framleiðslu, sbr. 41. gr.
    Jöfnunargreiðslur verða ekki framseldar eða uppkeyptar.

9. gr.

    41. gr. laganna orðast svo:
    Sauðfjárframleiðendur sem á árunum 2003–2007 uppfylla skilyrði um gæðastýrða framleiðslu samkvæmt reglum sem landbúnaðarráðherra setur í reglugerð eiga rétt til sérstakra álagsgreiðslna úr ríkissjóði. Álagsgreiðslur skulu greiddar af uppkaupaálagi, sbr. 4. mgr. 38. gr., og af þeim fjármunum sem beingreiðslur lækka um skv. 1. mgr. 39. gr. Álagsgreiðslur skulu greiddar fyrir tiltekna gæðaflokka dilkakjöts samkvæmt ákvörðun landbúnaðarráðherra að fengnum tillögum framkvæmdanefndar búvörusamninga. Álagsgreiðslur geta að hámarki numið 100 kr. á hvert kg dilkakjöts.

10. gr.

    2. mgr. 43. gr. laganna orðast svo:
    Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um greiðslumark lögbýla, beingreiðslur, framkvæmd og tilhögun þeirra, frávik frá ásetningshlutfalli, jöfnunargreiðslur, álagsgreiðslur, kaup ríkissjóðs á greiðslumarki, aðilaskipti að greiðslumarki o.fl.

11. gr.

    Í stað orðanna „lögum nr. 30 28. apríl 1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, með síðari breytingum“ í 3. mgr. 51. gr. laganna kemur: lögum nr. 96 27. maí 1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. laganna:
     f.      Í stað orðanna „laga nr. 81 3. ágúst 1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit“ í 1. mgr. kemur: laga nr. 7 12. mars 1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.
     g.      Í stað orðanna „laga nr. 24 1. febrúar 1936, um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum“ í 1. mgr. kemur: laga nr. 93 28. júní 1995, um matvæli.
     h.      Í stað orðanna „lögum nr. 30 28. apríl 1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum“ í 7. mgr. kemur: lögum nr. 96 27. maí 1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum.

13. gr.

    Í stað orðanna „lögum nr. 30 28. apríl 1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, með síðari breytingum“ í 4. mgr. 62. gr. laganna kemur: lögum nr. 96 27. maí 1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum.

14. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2001 að undanskildu ákvæði 4. efnismgr. 6. gr., sem verður 4. mgr. 38. gr. laganna, sem öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið að tilhlutan landbúnaðarráðherra og í samráði við Bændasamtök Íslands. Tilgangur frumvarpsins er að lögfesta nauðsynlegar breytingar á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, vegna ákvæða í samningi um framleiðslu sauðfjárafurða milli landbúnaðarráðherra f.h. ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands sem undirritaður var 11. mars 2000. Samningurinn er að verulegu leyti samhljóða eldri samningum um sama efni en felur einnig í sér nokkrar breytingar.
    Með samningi um stefnumörkun í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt frá 11. mars 1991 sem gerður var milli Stéttarsambands bænda (sbr. nú Bændasamtök Íslands, sbr. lög nr. 130/1994, um sameiningu Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda í ein heildarsamtök bænda) og landbúnaðarráðherra f.h. ríkisstjórnar Íslands og gilda átti fyrir verðlagsárin 1. september 1992 til 31. ágúst 1998 voru gerðar grundvallarbreytingar á starfsskilyrðum sauðfjárræktar. Útflutningsbætur voru aflagðar, framleiðsluskilyrði þrengd og í stað niðurgreiðslna á heildsölustigi komu beingreiðslur til bænda. Greiðslumark tók við af fullvirðisrétti. Heildargreiðslumark skyldi vera tiltekið magn kindakjöts, mælt í tonnum, sem skiptist í greiðslumark lögbýla. Við ákvörðun greiðslumarksins skyldi byggt á neyslu á síðasta almanaksári og söluþróun á tiltekinn hátt. Greiðslumark skyldi vera bundið við lögbýli. Greiðslumark hvers lögbýlis skyldi vera jafnt því sem fullvirðisréttur lögbýlisins yrði að lokinni aðlögun fullvirðisréttar að innlendum markaði, sem skyldi lokið 31. ágúst 1992. Aðlögunin fór fram með því að ríkissjóður keypti upp fullvirðisrétt, ígildi tæplega 4000 tonna, og skyldi þeim fullvirðisrétti sem hvert býli hafði að þeirri aðlögun lokinni breytt í greiðslumark. Ef um skerðingu eða aukningu yrði að ræða skyldi hún ganga hlutfallslega jafnt yfir alla sauðfjárframleiðendur á lögbýlum, sem einir gátu fengið úthlutað greiðslumarki. Greiðslumarkið fól þannig í sér hlutdeild í kindakjötsmarkaði innan lands og rétt til greiðslu úr ríkissjóði sem nam 50% af verði kindakjöts hverju sinni, samkvæmt ákvörðun verðlagsnefndar búvara (sexmannanefnd). Hér var því um að ræða framleiðslurétt sem gefin var heimild til að hafa viðskipti með og selja milli jarða. Væri um að ræða umframframleiðslu hjá einstökum framleiðendum skyldi hún flutt á erlenda markaði og þeim greitt það verð sem til skila gæti komið fyrir þá umframframleiðslu. Ákvæði samningsins frá 1991 voru lögfest með lögum nr. 5/1992, um breytingu á þágildandi búvörulögum, nr. 46/1985. Samningurinn var birtur sem fylgiskjal með frumvarpi til laga nr. 5/1992, sbr. Alþingistíðindi A-deild, 115. löggjafarþing 1991–1992, þskj. nr. 298.
    Ríkisstjórnin ákvað árið 1995 að gera nýjan samning um framleiðslu sauðfjárafurða og var hann undirritaður 1. október 1995. Samningurinn hafði í för með sér verulegar breytingar á réttarstöðu sauðfjárbænda og löggjöf um sauðfjárframleiðslu. Við gerð samningsins var af hálfu beggja samningsaðila byggt á eftirtöldum meginmarkmiðum: a) að auka hagkvæmni og samkeppnishæfni sauðfjárframleiðslu til hagsbóta fyrir sauðfjárbændur og neytendur, b) að treysta tekjugrundvöll sauðfjárbænda, c) að ná jafnvægi milli framleiðslu og sölu sauðfjárafurða, d) að koma á samræmi milli sauðfjárræktar og umhverfisverndar. Í samningnum var stefnt að því að ná þessum markmiðum með því að breyta rekstrarumhverfi sauðfjárframleiðslunnar, með frjálsara verðlagskerfi, með uppkaupum og tilfærslu á greiðslumarki og með því að styðja sauðfjárbændur sem hætta vildu búskap.
    Í samningnum frá 1995 voru gerðar eftirfarandi grundvallarbreytingar á eldri samningi um stefnumörkun í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt frá 1991:
    Samkvæmt samningnum frá 1995 skyldi öllum sauðfjárframleiðendum vera heimilt að koma með í afurðastöð til förgunar alla framleiðslu án takmörkunar. Allir skyldu fá sama rétt til sölu á innanlandsmarkaði á afurðum sínum án tillits til þess hvort þeir hefðu greiðslumark eða ekki. Talið var að framleiðsla til útflutnings gæti orðið hagkvæm bændum og var útflutningsskylda sett á alla sem tiltekið hlutfall með nokkrum almennum undantekningum. Framleiðsla sauðfjárafurða var hins vegar takmörkuð eftir eldri samningi þar sem hver sauðfjárbóndi hafði framleiðslurétt sem takmarkaði rétt hans til að framleiða á markað innan lands.
    Einnig var í samningnum frá 1995 ákveðið að afnema verðlagsákvæði. Verðlagning sauðfjárafurða skyldi gefin frjáls í tveimur áföngum, fyrst í heildsölu og ári síðar til bænda, og skyldi lögð af haustið 1998. Samkvæmt eldri samningnum var heildsölu- og sláturkostnaður ákveðinn hverju sinni af verðlagsnefnd búvara, svo og grundvallarverð til bænda.
    Enn fremur voru þær breytingar gerðar í samningnum frá 1995 að ákveðið var að beingreiðslur til bænda skyldu framvegis vera óháðar framleiðslumagni að öllu leyti en gerð var krafa um tiltekna sauðfjáreign sauðfjárbænda, 0,6 kindur á hvert ærgildi. Landbúnaðarráðherra gat veitt bændum undanþágu frá því ákvæði ef þeir tóku þátt í umhverfisverkefnum í samráði við Landgræðslu ríkisins eða Skógrækt ríkisins eða stunduðu nám eða starfsþjálfun eða tóku þátt í atvinnuþróunarverkefnum. Samkvæmt eldri samningi var það skilyrði til að öðlast rétt til beingreiðslna að framleiðsla hvers bónda lægi á bilinu 80–103% af greiðslumarki, mælt í ærgildum.
    Þá urðu þær breytingar með samningnum frá 1995 að óheimilt var að meginstefnu að flytja greiðslumark sauðfjárafurða á milli lögbýla.
    Ákvæði samningsins frá 1995 um framleiðslu sauðfjárafurða voru síðan lögfest með lögum nr. 124/1995, um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993. Samningurinn var birtur sem fylgiskjal með frumvarpinu, sbr. Alþingistíðindi A-deild, 120. löggjafarþing 1994–1995, þskj. nr. 100.
    Samningur sá sem nú liggur fyrir nær yfir tímabilið 2001–2007. Um efni hans vísast til fylgiskjals I með frumvarpi þessu. Búnaðarþing sem haldið var í mars 2000 samþykkti að mælt yrði með undirritun samningsins. Samningurinn er að nokkru leyti samhljóða sauðfjárhluta samnings sömu aðila um stefnumörkun í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt sem undirritaður var 11. mars 1991 með breytingum sem gerðar voru á honum með samningi um sauðfjárframleiðslu sem undirritaður var 1. október 1995. Greiðslumark verður áfram bundið við lögbýli. Beingreiðslur eru greiddar óháð framleiðslu. Framleiðsla og afurðauppgjör verður áfram óháð greiðslumarki lögbýlis. Ásetningshlutfall er enn 0,6 ærgildi árið 2001 en eftir það háð ákvörðun landbúnaðarráðherra. Öllum sauðfjárframleiðendum er áfram heimilt að koma með til förgunar alla framleiðslu sína án takmarkana. Allir sauðfjárframleiðendur taka þátt í útflutningi í sama hlutfalli og áður. Undanþegnir útflutningsuppgjöri eru eins og áður þeir bændur sem hafa 0,7 vetrarfóðraðar kindur eða minna á hvert ærgildi greiðslumarks en það hlutfall tekur breytingum í samræmi við breytingar á sölu kindakjöts innan lands. Verðlagning sauðfjárafurða er enn frjáls en bændur semja sjálfir við sláturleyfishafa um verð fyrir framleiðslu sína.
    Nýi samningurinn hefur að markmiði:
     a.      að styrkja sauðfjárrækt sem atvinnugrein og bæta afkomu sauðfjárbænda,
     b.      að ná fram aukinni hagræðingu í sauðfjárrækt,
     c.      að sauðfjárrækt verði í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og æskileg landnýtingarsjónarmið,
     d.      að halda jafnvægi milli framleiðslu og sölu sauðfjárafurða,
     e.      að efla fagmennsku, þekkingu og þróun í sauðfjárrækt.
    Helstu nýmæli í samningnum eru:
    Framsal greiðslumarks sauðfjárafurða. Heimilt verður að framselja greiðslumark sauðfjárafurða þegar ríkissjóður hefur keypt upp 45.000 ærgildi eða eigi síðar en 1. janúar 2004 en eins og áður segir hefur slíkt framsal verið óheimilt allt frá árinu 1995. Gert er ráð fyrir að framsal greiðslumarks milli lögbýla taki gildi 1. janúar ár hvert og að beingreiðslur greiðist framsalshafa frá og með sama tíma.
    Gæðastýrð framleiðsla og álagsgreiðslur. Beingreiðslur fara stiglækkandi á árunum 2003–2007. Hins vegar er gert ráð fyrir að árlega verði sama hundraðshluta beingreiðslna og lækkunin nemur varið til að greiða bændum sem uppfylla skilyrði um gæðastýrða framleiðslu eftir reglum sem landbúnaðarráðherra setur svokallaðar álagsgreiðslur.
    Jöfnunargreiðslur. Jöfnunargreiðslur verða greiddar þeim framleiðendum sem nýlega hafa hafið sauðfjárrækt, hafa haft miklar og vaxandi afurðir eftir hverja á eða hafa stækkað bú sín á undanförnum árum. Frekari skilyrði eru sett fyrir því að hljóta jöfnunargreiðslur en gert er ráð fyrir að ráðherra setji nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis í reglugerð. Jöfnunargreiðslur geta að hámarki numið 100 kr. á hvert kg dilkakjöts. Gert er ráð fyrir að varið verði um 60 millj. kr. á ári til jöfnunargreiðslna.
     Uppkaup greiðslumarks. Ríkissjóði er í lögunum veitt heimild til að kaupa upp greiðslumark eftir nánari ákvæðum sem ráðherra setur í reglugerð. Framkvæmdanefnd búvörusamninga getur ákveðið að uppkaupum skuli hætt þegar ríkissjóður hefur keypt upp 45.000 ærgildi. Gert er ráð fyrir að varið verði allt að 990 millj. kr. til uppkaupanna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er að finna skilgreiningu á nýjum hugtökum sem fram koma í lögunum og komu fram í nýjum samningi um framleiðslu sauðfjárafurða sem undirritaður var 11. mars 2000. Ný hugtök eru fjögur, þ.e. álagsgreiðslur sem greiddar verða fyrir gæðastýrða framleiðslu, gæðastýrð sauðfjárframleiðsla sem er dilkakjöt framleitt eftir kröfum um skilgreint framleiðsluferli, hollustu og umhverfisvernd, jöfnunargreiðsla sem er fjárhæð sem greidd er á framleiðslu umfram 18,2 kg á ærgildi samkvæmt skilyrðum sem fram koma í 40. gr. og útflutningsskylda sem felur í sér sameiginlega ábyrgð framleiðenda sauðfjárafurða á að tiltekinn hluti framleiðslu verði fluttur úr landi.

Um 2. gr.


    Hér er ákvæði um framleiðslu og uppgjör fyrir afurðir. Eins og áður er gert ráð fyrir að greiðslur fyrir kindakjöt verði óháðar greiðslumarki lögbýlis. Landbúnaðarráðherra skal eigi síðar en 1. september ár hvert taka ákvörðun um það hlutfall kindakjöts sem flytja skal á erlendan markað. Samkvæmt ákvæðinu er sláturleyfishöfum skylt að leggja til kjöt til útflutnings samkvæmt ákvörðun landbúnaðarráðherra, semja um skipti á kjöti við aðra sláturleyfishafa eða gera verktakasamning við útflutningshús um slátrun en að öðrum kosti greiða gjald vegna úflutningskvaðar. Þá kemur fram í ákvæðinu að allir sauðfjárframleiðendur skuli taka jafnan þátt í útflutningi með fáeinum undanþágum.

Um 3. gr.


    Fyrirsögn IX. kafla er hér breytt til samræmis við gildistíma nýs samnings um framleiðslu sauðfjárafurða.

Um 4. gr.


    Markmiðum þessa kafla laganna er hér breytt til samræmis við ný markmið sem fram koma í nýjum samningi um framleiðslu sauðfjárafurða. Ákvæðið er samhljóða upphafsákvæði samningsins.

Um 5. gr.


    Hér er aðallega um að ræða breytingar á eldra ákvæði um tímaviðmiðun og fjárhæð beingreiðslna.

Um 6. gr


    Greinin felur í sér að greiðslumark er bundið við lögbýli og er að því leyti óbreytt frá eldri lögum. Heimild til að framselja greiðslumark er hér óbreytt frá því sem var að öðru leyti en því að ákvæðið er bundið tímatakmörkunum. Nýmæli er hins vegar heimild til að framselja greiðslumark milli lögbýla sem tekur gildi 1. janúar 2004 eða þegar ríkissjóður hefur keypt upp 45.000 ærgildi. Samkvæmt ákvæðum nýs samnings um framleiðslu sauðfjárafurða skal slíkt ákvæði koma til framkvæmda eigi síðar en þá. Einnig er hér nýmæli að framsal greiðslumarks skuli taka gildi 1. janúar ár hvert eftir að framsal fer fram og beingreiðslur greiðast framsalshafa frá sama tíma. Ákvæði þetta er sett til að auðvelda aðilaskiptin í framkvæmd. Sé ábúandi annar en eigandi þarf að sjálfsögðu samþykki allra fyrir framsali eins og áður. Loks er í greininni ákvæði um að ríkissjóði sé heimilt að kaupa greiðslumark sauðfjárafurða. Skal beingreiðslum, sem svara til fyrstu 25.000 ærgildanna sem ríkið kaupir, varið til að greiða álag á framleitt dilkakjöt fyrstu tvö árin. Eftir það nýtast þær til álags á gæðastýrða framleiðslu. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd þessa en efni þeirrar reglugerðar verður væntanlega í samræmi við ákvæði nýs samnings um framleiðslu sauðfjárafurða um þetta atriði.

Um 7. gr.


    Greinin felur í sér að beingreiðslur greiðast úr ríkissjóði til handhafa í samræmi við greiðslumark lögbýlis og er það óbreytt frá því sem áður var. Gert er ráð fyrir að beingreiðslur verði kr. 4.399 á árunum 2001 og 2002 en fari síðan stiglækkandi á árunum 2003–2007 eins og fram kemur í ákvæðinu. Gert er ráð fyrir að því fé sem beingreiðslur lækka þannig um verði varið til að greiða bændum álagsgreiðslur fyrir gæðastýrða framleiðslu. Meginreglan um ásetningshlutfall er 0,6 vetrarfóðraðar kindur og lækka beingreiðslur hlutfallslega ef því ákvæði er ekki fullnægt. Fellt er brott úr lögunum ákvæði um að ráðherra sé heimilt að semja við bændur um lækkun ásetningshlutfalls án lækkunar beingreiðslna ef þeir taka þátt í umhverfisverkefnum í samráði við Landgræðslu ríkisins eða Skógrækt ríkisins, stunda nám eða starfsþjálfun eða taka þátt í atvinnuþróunarverkefnum. Þá eru ákvæði um rétt ábúenda til beingreiðslna að loknu búskaparhléi án þess að fyrir liggi samningur um búskaparlok og ákvæði um beingreiðslur sem lausar eru án samninga.

Um 8. og 9. gr.


    Greinarnar fela í sér nýmæli en gert er ráð fyrir að nánari reglur um framkvæmd ákvæðanna verði settar í reglugerð. Einnig vísast til almennra athugasemda með frumvarpi þessu og ákvæða nýs samnings um framleiðslu sauðfjárafurða, sbr. fylgiskjal I með frumvarpi þessu.

Um 10. gr.


    Greinin felur í sér orðalagsbreytingar í samræmi við annað efni frumvarpsins en gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um fleiri atriði en þar voru áður nefnd, t.d. álagsgreiðslur, gæðastýrða framleiðslu, jöfnunargreiðslur, framsal greiðslumarks o.fl.

Um 11.–13. gr.


    Hér er eingöngu um að ræða breytingar á tilvitnunum í önnur lög vegna lagabreytinga sem orðið hafa frá setningu laganna. Greinarnar þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 14. gr.


    Gildistökutími laganna er í samræmi við gildistöku nýs samnings um framleiðslu sauðfjárafurða sem miðuð er að meginstefnu við 1. janúar 2001. Ákvæði samningsins um uppkaup ríkissjóðs á greiðslumarki miðast hins vegar við fyrra tímamark en gert er ráð fyrir að uppkaupin hefjist þegar næsta haust og tekur ákvæði 4. efnismgr. 6. gr., sem verður 4. mgr. 38. gr. laganna, því þegar gildi. Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.




Fylgiskjal I.


Samningur
um framleiðslu sauðfjárafurða.

    Landbúnaðarráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtök Íslands, gera samkvæmt 30. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, með sér eftirfarandi samning um framleiðslu sauðfjárafurða, sem hefur það að markmiði:
     a.      að styrkja sauðfjárrækt sem atvinnugrein og bæta afkomu sauðfjárbænda,
     b.      að ná fram aukinni hagræðingu í sauðfjárrækt,
     c.      að sauðfjárrækt sé í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og æskileg landnýtingarsjónarmið,
     d.      að halda jafnvægi milli framleiðslu og sölu sauðfjárafurða,
     e.      að efla fagmennsku, þekkingu og þróun í sauðfjárrækt.
    Þessum markmiðum hyggjast samningsaðilar ná með því að beina stuðningi í ríkari mæli að gæðastýrðri framleiðslu, viðhalda því kerfi sem gildir um útflutning sauðfjárafurða, efla rannsóknir, kennslu, leiðbeiningar og þróun greinarinnar, vinna að sátt um mat á landnýtingu og aðstoð við þá bændur er vilja hætta sauðfjárframleiðslu.


1. gr.


Hugtök.



1.1 Beingreiðslumark.
    Tiltekin fjárhæð, sem ákveðin er í 2. gr. og skiptist milli lögbýla eftir greiðslumarki þeirra.

1.2 Jöfnunargreiðslur.
    Tiltekin fjárhæð sem greiðist á framleiðslu umfram 18,2 kg á ærgildi samkvæmt skilyrðum sem fram koma í gr. 3.1.

1.3 Álagsgreiðslur.
    Tiltekin fjárhæð sem greiðist á gæðastýrða framleiðslu, sbr. gr. 3.2.

1.4 Greiðslumark lögbýla.
    Greiðslumark lögbýla er tiltekinn fjöldi ærgilda, sem ákveðið er fyrir hvert lögbýli, sbr. gr. 2.2 og veitir rétt til beingreiðslu úr ríkissjóði.

1.5 Ærgildi.
    Við útreikning greiðslumarks til ærgilda er miðað við 18,2 kg kjöts.

1.6 Vetrarfóðruð kind.
    Ær, hrútar, sauðir og lömb sem sett eru á vetur og talin fram á forðagæsluskýrslu.

1.7 Útflutningsskylda.
    Sameiginleg ábyrgð framleiðenda sauðfjárafurða á að hluti framleiðslu verði fluttur úr landi.

1.8 Gæðastýrð sauðfjárframleiðsla.
    Dilkakjöt sem framleitt hefur verið eftir kröfum um skilgreindan framleiðsluferil, hollustu og umhverfisvernd.

2.     gr.
Greiðslumark.


2.1 Beingreiðslumark.
    Beingreiðslur til framleiðenda sauðfjárafurða verða 1.740 milljónir kr. á ári og skiptast hlutfallslega milli framleiðenda eins og beingreiðslur gerðu á árinu 2000. Beingreiðslur taka breytingum til samræmis við uppkaup ríkisins skv. gr. 2.3 og einnig frá árinu 2003 til sam ræmis við álagsgreiðslur á gæðastýrða framleiðslu skv. gr. 3.2.

2.2 Greiðslumark lögbýla.
    Greiðslumark er bundið við lögbýli og skal skráð í einu lagi, nema um fleiri sjálfstæða rekstraraðila sé að ræða, sem standa að búinu.
    Beingreiðsla greiðist úr ríkissjóði til framleiðenda á samningstímanum. Beingreiðslur verða 4.399 kr. á hvert ærgildi fyrsta og annað árið en lækka árlega eftir það samkvæmt ákvæðum í gr. 3.2.
    Til þess að fá fullar beingreiðslur þarf sauðfjárbóndi að eiga að minnsta kosti 0,6 vetrar fóðraðar kindur fyrir hvert ærgildi greiðslumarks. Nái ásetningur ekki þeirri tölu skerðast beingreiðslur hlutfallslega. Ásetningshlutfall þetta skal endurskoða árlega af Framkvæmda nefnd búvörusamninga.
    Greiðslumark getur flust milli lögbýla við; a) sameiningu jarða, b) ef eigandi jarðar sem hefur búið og stundað framleiðslu sl. tvö ár flytur á annað lögbýli og c) ef eigandi að sér skráðu greiðslumarki flytur á annað lögbýli. Þessi ákvæði gilda þar til heimilt verður að fram selja greiðslumark milli lögbýla án framangreindra takmarkana en það verður í síðasta lagi 1. janúar 2004. Sé ábúandi annar en eigandi þarf samþykki allra fyrir framsali greiðslumarks.
    Réttur til beingreiðslna flyst milli aðila innan lögbýlis við; a) ábúendaskipti, og b) breytingu skráningar ef um hjón eða sambýlisfólk er að ræða.
    Á jörðum þar sem búfjárbeit kemur í veg fyrir eðlilega framkvæmd uppgræðslu eða veldur of miklu álagi á beitiland, er Framkvæmdanefnd búvörusamninga heimilt að lækka ásetnings hlutfall að fenginni umsögn Landgræðslu ríkisins og/eða Skógræktar ríkisins, enda verði samhliða ráðist í að bæta beitarskilyrði.
    Heimilt verður að skerða eða fella niður beingreiðslur ef sauðfjárbóndi gefur rangar upp lýsingar um ásettan fjölda sauðfjár eða stundar ólöglega sölu eða dreifingu á kjöti af heima slátruðu sauðfé.

2.3 Uppkaup á greiðslumarki.
    Í hagræðingarskyni skal stefnt að uppkaupum á greiðslumarki. Í þeim tilgangi verður öllum greiðslumarkshöfum gert eftirfarandi tilboð um kaup á greiðslumarki:
a)        Fyrir þá sem semja fyrir 15. nóvember 2000 gilda eftirfarandi skilmálar:
                Greiddar verða 22.000 kr. fyrir hvert ærgildi greiðslumarks eins og það var skráð 1. janúar 2000.
b)        Fyrir þá sem semja fyrir 15. nóvember 2001 gilda eftirfarandi skilmálar:
                Greiddar verða 19.000 kr. fyrir hvert ærgildi greiðslumarks eins og það var skráð 1. janúar 2001.
c)        Fyrir þá sem semja fyrir 15. nóvember 2002 gilda eftirfarandi skilmálar:
                Greiddar verða 16.000 kr. fyrir hvert ærgildi greiðslumarks eins og það var skráð 1. janúar 2002.
d)     Fyrir þá sem semja eftir 15. nóvember 2002 gilda eftirfarandi skilmálar:
                Greiðslumarkshafi fær greiðslur sem svarar til þriggja ára beingreiðslna en þó aldrei lengur en til loka samningstímans. Gjalddagar verða sömu og um beingreiðslur væri að ræða.
    Samningshafar undir stafliðum a, b, c og d skulu undirgangast kvaðir um að framleiða ekki sauðfjárafurðir á samningstímanum. Þeim er þó heimilt að halda allt að 10 vetrarfóðr aðar kindur enda séu afurðir þeirra til eigin nota.
    Greiðslur skv. a-, b- og c-lið skal inna af hendi með eingreiðslu eftir að samningi hefur verið þinglýst á lögbýlið ásamt kvöð um tímabundið fjárleysi. Heimilt er þó að semja um að greiðslur dreifist á annan hátt þó að hámarki til þriggja ára.
    Framkvæmdanefnd búvörusamninga getur tekið ákvörðun um að hætta uppkaupum greiðslumarks eftir að 45.000 ærgildi hafa verið keypt.

2.4 Framsal greiðslumarks.
    Þegar ríkissjóður hefur keypt upp 45.000 ærgildi en þó ekki síðar en 1. janúar árið 2004 verður framsal á milli lögbýla á þeim hluta ríkisstuðnings sem bundinn er greiðslumarki heimilt. Framsal greiðslumarks skal taka gildi 1. janúar ár hvert og beingreiðslur greiðast framsalshafa frá sama tíma. Tilkynna skal Bændasamtökum Íslands framsal fyrir 15. janúar ár hvert vegna greiðslna fyrir viðkomandi ár.

2.5 Beingreiðslur eftir búskaparhlé.
    Falli beingreiðslur niður án þess að gerður hafi verið samningur um búskaparlok, sbr. gr. 2.3 heldur viðkomandi lögbýli greiðslumarki á samningstímanum. Til að fá beingreiðslur að loknu hléi, þarf að tilkynna um búskaparáform fyrir upphaf framleiðsluárs.

2.6 Skráning greiðslumarks.
    Bændasamtök Íslands skulu halda skrá yfir rétthafa greiðslumarks, staðfesta þær breyting ar sem á henni kunna að verða og skrá þær jafnóðum.

2.7 Eftirstöðvar beingreiðslna.
    Beingreiðslur sem lausar eru án samninga, m.a. vegna þess að greiðslumarkshafi uppfyllir ekki skilyrði til að hljóta fullar beingreiðslur, getur Framkvæmdanefnd búvörusamninga ákveðið að nota í önnur verkefni.

3. gr.
Jöfnunar- og álagsgreiðslur.


3.1 Jöfnunargreiðslur.
    Til að bæta stöðu þeirra framleiðenda er nýlega hafa hafið sauðfjárrækt, hafa haft miklar og vaxandi afurðir eftir hverja á eða hafa stækkað bú sín á undanförnum árum, verða nýttar allt að 60 milljónir kr. á ári í sérstakar jöfnunargreiðslur. Greidd verður jöfnun, að hámarki 100 kr/kg á greiðslugrunn, sem reiknast með eftirfarandi hætti: finna skal það meðalinnlegg dilkakjöts tveggja ára af þremur síðustu sem er umfram 18,2 kg á hvert ærgildi lögbýlisins eins og það var skráð við hver áramót þar á undan. Reikna skal 30% álag á framleiðslu júní- og júlímánaða og 12% álag á framleiðslu ágústmánaðar. Sala líflamba vegna fjárskipta skal talin til framleiðslu. Þeir einir njóta jöfnunargreiðslna sem skiluðu árlega í afurðastöð að reiknuðu meðaltali meira en 1.250 kg dilkakjöts á árunum 1997, 1998 og 1999. Skilyrði til að hljóta jöfnunargreiðslur er að innlagt dilkakjöt á árinu fari ekki niður fyrir 18,2 kg á hvert ærgildi greiðslumarks og að innlagt dilkakjöt árið á undan sé að lágmarki 18,2 kg eftir hverja vetrarfóðraða á. Frá og með árinu 2003 verður framleiðslan að vera gæðastýrð. Jöfnunar greiðslur verða ekki framseldar eða uppkeyptar.

3.2 Álagsgreiðslur vegna gæðastýringar.
    Gerð hefur verið sérstök áætlun um uppbyggingu gæðastýringar í sauðfjárrækt. Þeir bændur sem taka þátt í því verkefni fá greiðslur sem nema að hámarki 100 kr./kg á ákveðna gæðaflokka dilkakjöts. Nánari lýsingu á verkefninu er að finna í fylgiskjali 1. Til þessa verk efnis verður árlega, frá og með árinu 2003, varið ákveðnum hundraðshluta beingreiðslna eða sem hér segir:

    Ár     2003     2004     2005     2006     2007
    Hlutfall     12,5%     15%     17,5%     20%     22,5%

3.3 Uppkaupaálag.
    Beingreiðslum sem svara til fyrstu 25.000 ærgildanna sem ríkið kaupir upp, skal varið til að greiða álag á framleitt dilkakjöt fyrstu tvö árin. Eftir það nýtast þær til álags á gæðastýrða framleiðslu.

3.4 Verklagsreglur.
    Framkvæmdanefnd búvörusamninga setur nánari verklagsreglur um framkvæmd jöfnunar og álagsgreiðslna, m.a. um mat á framleiðslu þeirra sem skorið hafa niður vegna riðu.

4. gr.
Framleiðsla og uppgjör.


4.1 Framleiðsla og ráðstöfun.

    Innlegg og afurðauppgjör er óháð greiðslumarki sem ákveðið er skv. 2. gr. Áður en sláturtíð hefst verður gerð áætlun um framleitt magn af kindakjöti. Jafnframt verði áætlað hvernig haga megi afsetningu framleiðslunnar og þá tekið mið af birgðastöðu við upphaf sláturtíðar. Sláturleyfishöfum og sauðfjárframleiðendum verði kynnt áætlun um útflutnings hlutfall fyrir 1. júní ár hvert. Fyrir 1. september ár hvert verði tekin endanleg ákvörðun um það magn kindakjöts sem flytja skal á erlendan markað. Uppgjör við sauðfjárframleiðendur skal tryggja að þeir taki þátt í útflutningi með sama hlutfalli af framleiðslu sinni. Undan þegnir útflutningi eru einungis þeir sem hafa 0,7 vetrarfóðraðar kindur eða minna á hvert ær gildi greiðslumarks og skal það hlutfall taka breytingum í samræmi við breytingar á sölu kindakjöts á innlendum markaði reiknað frá 7.000 tonna árlegri sölu. Fer þá öll framleiðsla þeirra til innanlandssölu, enda liggi fyrir sauðfjártalning búfjáreftirlitsmanns staðfest af öðrum trúnaðarmanni. Framleiðendur skuldbindi sig jafnframt til þess að leggja aðeins inn afurðir þess fjár.

4.2 Uppgjör á afurðum.
    Hver sauðfjárbóndi fær séruppgjör frá sláturleyfishafa fyrir kjöt framleitt fyrir innanlands markað og séruppgjör fyrir kjöt framleitt til útflutnings. Verð fyrir framleiðsluna er samn ingsatriði milli sauðfjárbænda og sláturleyfishafa.

4.3 Slátrun.
    Sláturleyfishafa er skylt að leggja til kjöt í útflutning í hlutfalli sem ákveðið er skv. lið 4.1., semja um skipti á kjöti við sláturleyfishafa með heimild til útflutnings eða gera verk takasamning við útflutningshús um slátrun þess hluta innleggs hússins sem flytja þarf úr landi.

4.4 Þjónustu- og þróunarkostnaður.
    Ráðstöfun þjónustu- og þróunarkostnaðar er í umsjón bænda. Auk þess að mæta vaxta- og geymslukostnaði skal nota hluta gjaldsins til hagræðingar og vöruþróunar og til að örva slátrun utan hefðbundins sláturtíma, enda dragi sú slátrun úr þörf á birgðahaldi. Framlög ríkissjóðs vegna þjónustu- og þróunarkostnaðar verða 235 milljónir kr. á ári.

4.5 Niðurgreiðslur á ull.
    Ráðstöfun fjár til niðurgreiðslna á ull er í umsjón bænda. Framlög ríkissjóðs vegna niður greiðslna á ull verða 220 milljónir kr. á ári.

5. gr.
Kennsla, rannsóknir og leiðbeiningar.

5.1 Framlag til fagmennsku í sauðfjárrækt.
    Á samningstímanum skal árlega verja 35 milljónum kr. til að efla fagmennsku í sauðfjár rækt. Þær verða nýttar til að styðja kennslu, rannsóknir, leiðbeiningar og þróun í greininni og til stuðnings átaksverkefnum á sauðfjárræktarsvæðum. Heimilt er að leita samráðs við Framleiðnisjóð landbúnaðarins við ráðstöfun á hluta þessa fjármagns. Uppbygging gæða stýringar verður studd af þessum lið.

6. gr.
Ýmis ákvæði


6.1 Birgða- og sölumál.

    Ávallt verði unnið að því að halda jafnvægi í birgðum sauðfjárafurða m.a. með mark vissum markaðsaðgerðum innanlands og með útflutningi.

6.2 Greiðslutilhögun.
    Allar fjárhæðir í samningi þessum skulu miðaðar við verðlag 1. mars 2000 og taka breyt ingum þaðan í frá samkvæmt vísitölu neysluverðs. Stefnt skal að því að greiðsluflæði innan ársins sé sem jafnast og sambærilegt við það sem verið hefur undanfarin ár. Álags- og jöfn unargreiðslur hafa sömu gjalddaga og beingreiðslur. Uppgjör greiðslna vegna jöfnunar- og álagsgreiðslna miðast við áramót.

6.3 Endurskoðun.
    Aðilar samnings þessa geta hvor um sig óskað eftir viðræðum um endurskoðun á einstök um atriðum hans. Að þremur árum liðnum skulu samningsaðilar gera úttekt á framkvæmd samningsins með tilliti til markmiða hans. Skal þá sérstaklega hugað að hvernig til hefur tekist með undirbúning og framkvæmd gæðastýringar og endurskoðað hve stór hluti stuðn ings skuli greiddur út á gæðastýrða framleiðslu. Í framhaldi af því skal hefja undirbúning viðræðna um áframhaldandi stefnumörkun á þessu sviði. Samningsaðilar geta tekið ákvörðun um aðra skiptingu fjármuna milli verkefna og ára en í samningi þessum segir.

6.4 Framkvæmd og gildistími.
    Framkvæmdanefnd búvörusamninga hefur umsjón með framkvæmd samnings þessa. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2001 til 31. desember 2007.


Reykjavík, 11. mars 2000.

    F.h. Bændasamtaka Íslands,     F.h. ríkisstjórnar Íslands,

    með fyrirvara um samþykki í     með fyrirvara um nauðsynlegar
    almennri atkvæðagreiðslu,     lagaheimildir Alþingis,

    Ari Teitsson, form.      Guðni Ágústsson,
         landbúnaðarráðherra.
     Aðalsteinn Jónsson.                Geir H. Haarde,
     Ásbjörn Sigurgeirsson.     fjármálaráðherra.

     Gunnar Sæmundsson.

     Jóhannes Ríkharðsson.

     Örn Bergsson.



Fskj. 1.



GÆÐASTÝRÐ SAUÐFJÁRRÆKT
(11. mars 2000.)


Stjórnun, ábyrgð, undirbúningur, framkvæmd,
eftirlit og tilgangur gæðastýringar í sauðfjárrækt
.


Tilgangur. Að bæta sauðfjárbúskap, tryggja neytendum örugga vöru og bændum betri afkomu.

Ábyrgð. Framkvæmdanefnd búvörusamninga er ábyrg fyrir á framkvæmd verkefnisins. Nefndinni er heimilt að ráða aðila til að stýra uppbyggingu verkefnisins.

Samráðsnefnd. Eftirtöldum stofnunum, embættum og samtökum verður auk samningsaðila boðið að tilnefna aðila í samráðsnefnd vegna gæðastýringar: Landssamtökum sauðfjárbænda, Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Samtökum sláturleyfishafa, embætti yfirdýralæknis og Landgræðslu ríkisins. Hlutverk nefndarinnar er aðstoð við undirbúning og framkvæmd verkefnisins.

Gæðastýringin tekur til eftirfarandi þátta.

     1.      Landnota. Framleiðandinn sýnir fram á afnotarétt yfir landi, þar með talið afrétt, sem fullnægir beitarþörf alls búpenings viðkomandi bús. Nánar skilgreint í gæðahandbók.
     2.      Einstaklingsmerkinga. Sauðfé merkt og skráð samkvæmt gæðahandbók.
     3.      Kynbótaskýrsluhalds. Bústofn skráður og metinn í viðurkenndu kynbótaskýrsluhaldi.
     4.      Gæðadagbókar. Hirðing og meðferð bústofns skráð samkvæmt gæðahandbók.
     5.      Búfjáreftirlits. Leggja skal fram vottorð frá búfjáreftirlitsmanni sveitarfélags um fóður, aðbúnað og ástand búfjár, sbr. ákvæði gæðahandbókar. Lagt skal mat á ytri ásýnd býlis ins, sbr. ákvæði gæðahandbókar
     6.      Lyfjaeftirlits. Gera skal grein fyrir kaupum og notkun lyfja á búinu.
     7.      Áburðarnotkunar og uppskeru. Gera skal grein fyrir áburðarnotkun, hvernig hún er ákvörðuð og uppskera skráð af hverri spildu, sbr. ákvæði gæðahandbókar.
     8.      Fóðrunar. Gera skal grein fyrir fóðrun og fóðurefnum (beit, heygjöf, kjarnfóðri o.fl.) sbr. ákvæði gæðahandbókar.

Undirbúningur að gæðastýringu.

Umsóknir
: Bændur sem óska eftir því að taka þátt í verkefninu sækja um það til viðkomandi búnaðarsambands. Í umsókn verði getið þeirra þátta sem óskað er samkvæmt gæðahandbók.
Námskeið. Umsækjendur sækja tveggja daga námskeið til undirbúnings gæðastýringu. Jafnframt verður boðið upp á fagnámskeið í helstu þáttum búrekstrar, sem einkum eru ætluð þeim sem ekki hafa búfræðimenntun.
Staðsetning. Námskeiðin verða haldin sem víðast um landið. Námskeiðsaðstaða skal vera björt, tæki og tækni í lagi og aðbúnaður góður. Þar sem því verður komið við skal miða við að hvert námskeið verði grunnur að hópstarfi. Æskilegt er að miðað verði við ákveðin svæði eða félagseiningu (fjárræktarfélög) þegar námskeið eru skipulögð.
Kennarar/leiðbeinendur. Leiðbeinendur við námskeiðin verða kennarar við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, ráðunautar og rannsóknamenn.
Kennslugögn. Búnaðarfræðslan hefur umsjón með gerð kennslugagna. Við gerð þeirra skal miða við að þau nýtist sem handbók við störf bóndans eftir að verkefnið er hafið. Við gerð kennslugagnanna skal taka mið af almennri uppbyggingu gæðastýringar í landbúnaði. Gæða handbók, unnin á ábyrgð Bændasamtaka Íslands liggi fyrir þegar námskeið hefjast enda er hún í raun verkefnalýsing fyrir þátttakendur.
Eftirfylgni. Búnaðarsambönd verða ábyrg fyrir eftirfylgni verkefnisins. Á hverju búnaðarsambandssvæði verða myndaðir hópar bænda sem funda reglulega undir stjórn eins hópstjóra. Hópstjórar hvers svæðis funda reglulega með sauðfjárræktarráðunaut viðkomandi búnaðar sambands. Að loknu fyrsta ári verkefnisins verður reynslan metin, m.a. hvort nauðsyn sé á frekara námskeiðahaldi.
Eftirlit. Eftirlitið skal vera virkt en ódýrt og í höndum þeirra stofnana og samtaka sem nú starfa í landbúnaði. Skil á kynbótaskýrsluhaldi, gæðahandbók, landnotavottorði og upplýs ingum úr búfjáreftirliti er forsenda álagsgreiðslu vegna gæðastýringar. Framkvæmdanefnd búvörusamninga ákveður hvaða aðilar teljast styrkhæfir á grundvelli þeirra gagna sem talin hafa verið hér að ofan.
Tími. Verkefnið hefst árið 2003.
Greiðslutilhögun. Greitt verður út á hvert innlagt kg dilkakjöts sem uppfyllir ákveðnar gæðakröfur (ekki gæðaflokk P né fituflokka 4 og 5).



Fskj. 2.

Viljayfirlýsing


vegna mats á landnýtingu vegna gæðastýringarþáttar í
samningi um framleiðslu sauðfjárafurða.


Almennt.
    Meginviðmiðun við ákvörðun á nýtingu heimalanda og afrétta er að nýtingin sé sjálfbær, ástand beitarlands sé ásættanlegt og gróður í jafnvægi eða framför. Bóndi sem sækir um þátt töku í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu þarf að fá staðfest að hann hafi yfir að ráða beitilandi sem sé í viðunandi ástandi og beitarnýting sé sjálfbær. Nytjaland mun á næstu árum afla grunnupplýsinga um stærð einstakra jarða og gróðurfar þeirra og út frá þeim gögnum áætla hvort nægjanlegt gróðurlendi sé til núverandi beitarnytja. Matsreglur byggjast að stærstum hluta á mati á stærð gróðurlendis og gerð þess (gróðurfar – framleiðni) ásamt fyrirliggjandi gögnum um nýtingu og ástand, t.d. vegna rofs (uppblástur). Leiki vafi á að fullnægjandi beiti land sé fyrir hendi eða þar sem vitað er að ástand landsins er ekki ásættanlegt, svo sem vegna upplýsinga um rof eða hrossabeit, fer fram ítarlegri skoðun á landinu. Jafnframt skal stefnt að því að auðnir og rofsvæði verði ekki nýtt til beitar og gerðar tímasettar framkvæmda- og fjárhagsáætlanir um úrbætur eftir því sem við á. Fáist ekki fjármagn til nauðsynlegra girðinga verða bændur ekki látnir gjalda þess í vottun.

Heimalönd.
    Fram fari mat á stærð og gerð gróðurlendis heimalanda. Staðfesta þarf að beitarnýting þess lands sem hver bóndi hefur afnotarétt af sé innan þeirra marka sem viðurkenndar verklagsreglur Nytjalands kveða á um. Séu heimalönd samliggjandi jarða ógirt getur vottunaraðili staðfest fyrir viðkomandi svæði í heild hvort beit sé fullnægjandi, að því tilskyldu að nýtingin sé ágreiningslaus.

Afréttir.
    
Meta þarf hvar sauðfjárbeit getur talist vistfræðilega sjálfbær, þ.e. að hún stuðli ekki að eyðingu gróðurs og að gróður sé í jafnvægi eða framför. Þar sem land hefur lágmarkshulu gróðurs, rof innan tilskildra marka og ástand gróðurs talið ásættanlegt, skal beitarnýting ekki vera meiri en svo að jafnvægi ríki eða gróðri fari fram og rof minnki. Þar sem gróðurhula er innan við tiltekið lágmark eða rof talið of mikið en þó samfelld gróðursvæði á afrétti, skal miða við að afmarka beitarsvæði afréttarins þar sem gróður er nógur og rof talið lítið. Afréttir sem einkennast fyrst og fremst af auðnum og/eða rofsvæðum geta fengið tímabundna vottun (t.d. allt að 10 ár), ef þar er unnið samkvæmt tímasettri áætlun um friðun afréttar á meðan annarra úrlausna er leitað, svo sem að skapa beit á öðrum stöðum. Þar sem svo háttar skal Landgræðsla ríkisins í samráði við bændur, sveitarfélög, og Nytjaland, vinna aðgerðaráætlun um úrbætur.

Úrbætur.
    
Þar sem umbóta er þörf svo uppfylla megi kröfur um landnýtingarþátt gæðastýringar gerir framleiðandi og eftir atvikum aðrir umráðaaðilar landgræðslu- og landnýtingaráætlun í sam ráði við Landgræðsluna. Áætlunin getur m.a. falið í sér beitarfriðun svæða, sáningu og/eða áburðargjöf og að viðkomandi bændur séu að vinna að uppgræðslu í heimalöndum til að geta minnkað álag á afrétt. Framkvæmd hennar skal höfð til hliðsjónar þegar vottunaraðili metur landið.

Vottunaraðili.
    Þar sem verklagsreglur og niðurstöður Nytjalands veita ekki fullnægjandi upplýsingar um að landnýting sé sjálfbær, þarf vottunaraðili með þekkingu á landlæsi að skoða viðkomandi land og nýtingu þess. Landgræðsla ríkisins og Rannsóknastofnun landbúnaðarins þjálfa starfsfólk og samhæfa vottunina, en þeir sem votta þurfa að fá til þess viðurkenningu land búnaðarráðuneytisins.

Álita- og ágreiningsmál.
    Ágreiningsefnum varðandi synjun á vottun vegna landnota skal vísað til úrskurðarnefndar sem landbúnaðarráðherra skipar.

Gildistaka.
    Ákvæði verklagsreglna þessara skulu taka gildi árið 2003 enda sé ljóst í upphafi árs 2003 að þær grunnupplýsingar sem aflað verður með verkefninu Nytjaland liggi fyrir eigi síðar en 1. september 2003.

Reykjavík 11. mars 2000.



Guðni Ágústsson,


landbúnaðarráðherra.



     Sveinn Runólfsson,      Ari Teitsson,
    Landgræðslu ríkisins.     Bændasamtökum Íslands.

     Þorsteinn Tómasson,      Aðalsteinn Jónsson,
    Rannsóknastofnun landbúnaðarins.     Landssamtökum sauðfjárbænda.



Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að breyta lögum svo að markmið nýs sauðfjársamnings nái fram að ganga. Áætlaður kostnaður ríkissjóðs af nýjum sauðfjársamningi er sýndur í eftirfarandi töflu. Allar tölur eru miðaðar við verðlag 1. mars 2000 og taka breytingum þaðan í frá samkvæmt vísitölu neysluverðs.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 Alls
Viðfangsefni fjárlaga
1.01 Beinar greiðslur til bænda 1.641 1.542 1.349 1.311 1.272 1.234 1.195 9.544
1.02 Lífeyrissjóður bænda 72 68 61 59 58 56 55 429
1.03 Jöfnunargreiðslur 60 60 60 60 60 60 60 420
1.04 Álagsgreiðslur vegna gæðastýringar 193 231 270 308 347 1.349
1.05 Niðurgreiðslur á ull 220 220 220 220 220 220 220 1.540
1.06 Álag vegna uppkaupa á greiðslu-
marki

99

110

110

110

110

110

110

759
1.10 Þjónustu- og þróunarkostnaður 235 235 235 235 235 235 235 1.645
1.30 Uppkaup á greiðslumarki 923 0 0 0 0 0 0 923
1.35 Fagmennska í sauðfjárrækt 35 35 35 35 35 35 35 245
Samtals 3.285 2.270 2.263 2.261 2.260 2.258 2.257 16.854
Forsendur
Beingreiðsla, krónur á ærgildi 4.399 4.399 3.849 3.739 3.629 3.519 3.409
Uppkaup á ærgildi í krónum 22.000 19.000 16.000 11.217 10.887 7.038 3.409
Álag vegna gæðastýringar 12,50% 15,00% 17,50% 20,00% 22,50%
Samtals fjöldi ærgilda 395.544 373.044 350.544 350.544 350.544 350.544 350.544
Fjöldi uppkeyptra ærgilda 22.500 22.500 0 0 0 0 0
Fjöldi ærgilda í beingreiðslum 373.044 350.544 350.544 350.544 350.544 350.544 350.544
Lífeyrisprósenta ofan á beingreiðslur 4,0%